Leita í fréttum mbl.is

Að gangast við mistökum sínum

Ég leyfi mér að fullyrða að ég hef aldrei hitt nokkurn mann sem hefur ekki skilið eftir sig langa slóð mistaka á sinni lífsleið. Hvort hann viðurkennir það er annað mál. Ég veit þó fyrir mitt leiti að lífsganga mín hefur verið eintóm röð ósigra og vonbrigða.

Væntingar mínar um betri fjárhag hafa enn ekki orðið að veruleika. Það er við engan annan að sakast en sjálfan mig, því ég hef aldrei kunnað með peninga að fara og ekki tekist að leggja fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Það kemur þó ekki slæmu fjármálalæsi mínu við, heldur almennu skeytingarleysi og óskipulagi. Draumurinn um að klára menntunina sem loksins á að styrkja stoðir sjálfsvirðingunnar hefur ekki enn þá ræst. Agaleysi, en þó fyrst og fremst ófyrirséðir erfiðleikar hafa gert drauminn að engu, enn sem komið er.

Ég á að baki þó nokkrar misheppnaðar, klúðurslegar tilraunir til að tæla tilvonandi elskhuga, og telst maður bara heppinn ef sjálfsvirðingin sleppur lifandi undan skömminni. Vinasambönd hafa verið eyðilögð í gáleysi þar sem algjörlega óviðeigandi orð hafa verið látin falla. Orð sem mynda gjá sem engin leið virðist vera að brúa. Stundargleðin í mikilli áfengisdrykkju hefur leitt til skandala sem ég hef helst ekki viljað að bærust nokkurn tíma í tal. Ég gæti talið upp margar hræðilega skömmustulegar sögur úr mínu lífi en ég efa að nokkur maður hafi áhuga á að lesa þær, nema þá til að dreifa huganum frá sínum eigin hrakförum. Það er heldur ekki mergur málsins.

 

Ég er alls ekki á þeim stað í dag og ég hafði gert ráð fyrir þegar ég var yngri. Í sakleysi mínu sá ég framtíðina fyrir mér í hyllingum þar sem ég fengi loksins þá stöðu og aðdáun sem ég ætti skilið. Ég er ekki ennþá búinn að klára að "mennta" mig (ólokið háskólanám) eða er ég orðinn ríkur og kominn með hina fullkomnu líkamsmynd. Það verður mér þó sífellt ljósara hve mikill hroki liggur að baki því að eftirvæntingar sem þessar séu einu mælikvarðarnir á góðu og hamingjusömu lífi, því það getur alltaf eitthvað óvænt komið upp á. Óvægin dómharka í eigin garð hefur verið minn helsti löstur og fylgt mér eins lengi og mig rekur minni til. Það að gera mistök og uppskera ekki í samræmi við eftirvæntingar hefur verið til marks um að ég sé gallaður og heimskur. Ég hef því forðast það eftir bestu getu að mæta eigin refsivendi þar sem sjálfsfyrirlitningin hefur níst inn að beinum þegar mér óhjákvæmilega hefur orðið á. Mér hefur jafnvel þótt það skárri kostur að hlífa viðkvæmri sjálfsvirðingunni með því að afneita því að ég bæri sökina.

Ég hef líka átt það til, og stend mig að vísu enn stundum að því, að lyfta mér upp á hærri stall en annað fólk þegar vel hefur gengið. Það er þó ekkert nema sjálfsblekking að trúa því að maður standi öðrum mönnum framar, og er maður dæmdur til að mistakast hrapallega ef hugurinn villist inn á þá braut. Sjálfsdýrkun hefur óhjákvæmilega leitt til stöðugra vonbrigða og óhamingju. Eftir því sem þroskinn hefur læðst meir aftan að mér viðurkenni ég fúslega að hvort tveggja á í dag við um mig. Ég er bæði heimskur og gallaður. En með þeirri viðurkenningu finn ég loksins fyrir langþráðu frelsi.

Það er hræðilegt að vera fullkominn og gera engin mistök. Heimska er nefnilega ekkert annað en þekkingarleysi, og ef maður getur ekki viðurkennt fyrir sér sitt eigið þekkingarleysi þá mun jafnframt ekki reynast þörf fyrir frekari framfarir. Hér er ég ekki að tala um þekkingu byggða á lestri hinna fjölmörgu bóka, heldur það að þekkja eigin hugsunarhátt og skilja þær hvatir sem ráða förinni á bak við tjöldin. Margfróður fræðimaður getur þannig verið heimskari en hinn fáfróðasti betlari með því að láta sinn eigin hroka hlaupa með sig í gönur. Ég er meðvitaður um það, að um leið og ég hætti að gera mistök þá hætti ég að læra. Þetta umrædda frelsi sem ég lýsti yfir að ég upplifi gefur mér þó ekki leyfi til að skeyta engu um mín mistök. Ég get gengist við þeim heils hugar og gert heiðarlegt og skilningsríkt uppgjör við sjálfan mig, en það er alltaf best að halda sig innan marka eigin þekkingar áður en ályktanir eru dregnar til að forðast það að fara með rangt mál. Ef einhver heldur að ég hafi skyndilega frelsast til dýrlings, þá er ég hræddur um að inntakið hafi misst marks.

 

Ég fullyrti hér í upphafi að ég hef ekki hitt neinn sem ekki hefur klúðrað mörgu í sínu lífi, en þó hef ég hitt marga sem halda að þeir einfaldlega geri ekki mistök og að það felist ákveðinn veikleiki, eða uppgjöf, í viðurkenningunni. Þegar hlutir fara ekki eins og til var vonast þá liggur sökin alltaf annars staðar. Ég kannast vel við þetta því ég hef sjálfur fetað þessa slóð lengi. Ég var ofurseldur þeim hugmyndum sem samfélagið selur. Samfélag okkar er kröfuhart og það er ekki mikið svigrúm gefið fyrir mistök í hinum harða heimi samkeppninnar. Hinn stöðugi metingur aftrar mönnum frá því að gangast við mistökum sínum. Það kemur t.d. í ljós þegar einhver í opinberri stöðu verður uppvís að slælegum vinnubrögðum. Þá hefst orðaleikur þar sem réttlætingin fyrir mistökunum, eða afneitunin, er algjör og ber því lítið á heiðarlegri og málefnalegri umræðu. Enginn verður þ.a.l. látinn axla ábyrgð á gjörðum sínum því það var einungis óvitaskapur sem átti í hlut. Það var aldrei neinn illur ásetningur að baki og menn ættu því að beina athyglinni frá "neikvæðninni" í uppbyggilegri farveg.

Það er þó að vissu leiti erfitt að áfellast einhvern fyrir að vilja ekki láta kasta sér á bálið af æstum múgnum. Dómharkan er allsráðandi. Það þarf að gæta ákveðins umburðarlyndis fyrir mistökum svo fólk geti tekið ábyrgðina án þess að vera grillað í bakaraofninum. Það gæti þá, ef tilefni þykir til, sagt af sér með reisn og sæmd (og nú hefur ansi oft þótt tilefni til afsagnar ýmissa). Þeir sem gera mistök eru bókstaflega teknir af lífi í þjóðfélaginu. Það er hópur manna sem gleðst ákaft yfir mistökum annarra, og skiptir þá litlu máli hver á í hlut. Illskan eða heimskan sem þeir sjá gefur þeim færi á að svífa um á englavængjum á meðan þeir úthúða fáráðlingnum. Þeim þykir það sjálfum best að standa aldrei upp úr sínum þægilega sófa svo engin hætta skapist á að þeir verði sjálfum sér til "skammar". Það er langbest að forðast að taka þá áhættu sem fylgir því að reyna að leggja eitthvað gott til málanna. Iðkun sjálfstæðra hugsanna leggur mann í hættu, því oftar en ekki reynast niðurstöðurnar vera í mótsögn við víðteknar skoðanir meirihlutans.

Með þessum hugsunarhætti stefnum við óðum að enn meiri firringu og úrkynjun samfélagsins. Það er hér um bil að réttsýnt fólk sé hætt að þora að sýna einlægni í umræðunni vegna þess að hún er túlkuð sem hroki og sýndarmennska, og gefur lágkúrulegum mönnum færi á að kasta þyngri höggum. Það þarf kjark, staðfestu og um fram allt skilning á mannlegu eðli til að geta beitt einlægninni í samhljóm við eigin sannfæringu. Skilningurinn felst í því að vita hvaða hvatir búa að baki hjá þeim sem reyna að koma á höggi fyrir neðan mittistað, því þeirra er skilningsleysið og skömmin.

Einhverjir furða sig svo á því að pólitíkin snúst æ meir í kringum pópulisma en málefnin. Það er þó akkúrat í takt við eftirspurnina. Það skiptir meira máli að bíllinn sé vel lakkaður og bónaður en að vélin í honum yfirhöfuð starti sér. Við þurfum ekki að líta nema vestur yfir Atlantshafið, þar sem persónudýrkunin ræður algjörum ríkjum, til að sjá hvers konar eiginleikar gætu orðið eftirsóknarverðastir hjá framtíðar leiðtogum okkar. Þeir vilja halda fólkinu sem fáfróðast, á meðan það er blekkt í að trúa að það séu í raun vel upplýst. Á meðan nær sérstaða og hégómi valdamanna enn hærri hæðum. Þetta er nú þegar veruleikinn hér, en það stefnir í enn meira óefni þar sem við erum fyrir löngu komin út af sporinu. Við færumst óðum fjær þeim vel upplýstu leistarteinum sem eiga að leiða okkur í áttina að gæfuríkara þjóðfélagi. Við þurfum því að átta okkur á því að við höfum gert afdrifarík mistök með því að hafa leyft kapítalískum hugsjónum að ginna hugann með gylliboðum um aukna velsæld og hamingju, í formi eintómrar efnishyggju.


Höfundur

Bjarki Freyr Bjarnason
Bjarki Freyr Bjarnason

Ungur karlmaður sem deilir hugrenningum sínum er varða eigin lífsreynslu, og þjóðfélags- og dægurmál. Ég fagna allri málefnalegri umræðu, svo lengi sem henni er hægt að svara á skynsamlegum nótum. Ég hef ekki í hyggju að móðga neinn, en ef það kæmi til þess þá þarf viðkomandi að eiga það við sjálfan sig.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband